Desember 2015

Stjórn Hollvina fundar með Landspítala

 

Stjórn Hollvina Grensásdeildar átti fund með Páli Mathíassyni forstjóra LSH og nokkrum yfirmönnum spítalans og Grensásdeildar 17. desember sl. Fundurinn var haldinn að beiðni HG. Eftir að ljóst varð eftir fund með heilbriðgðisráðherra í ágúst í fyrra að dráttur yrði á byggingaframkvæmdum við Grensásdeild ákvað stjórn HG að skynsamlegt gæti verið að nýta a.m.k hluta þeirr fjármuna sem fyrir hendi eru til að endurhanna lóðina við Grensásdeild og gera hana þannig að hún nýtist skjólstæðingum deildarinnar til útivistar og til þjálfunar. Reisa þarf garðskála og koma fyrir aflíðandi stígum, þrepum og brúnum sem brýnt er að hreyfihamlaðir geti æft sig á. Auk trjágróðurs og blóma, mætti koma fyrir matjurtagarði og hluti beðanna gæti verið upphækkaður – t.d. á borðum – þannig að vinna mætti við þau úr hjólastól. Þannig gæfi garðurinn nýja möguleika fyrir iðjuþjálfun. Þessi hugmynd fékk góðan hljómgrunn hjá forsvarsmönnum spítalans.
 
 
Einnig var rætt um viðhaldsmál byggingarinnar en HG er ekki heimilt að koma að hefðbundnu viðhaldi. Hins vegar hafa komið fram hugmyndir um að byggja létta fjórðu hæð ofan á núverandi byggingu og gætu samtökin komið að því verkefni t.d. innréttingum eða umbreytingu núverandi húsnæðis, m.a. með því að breyta tvíbýlum í einbýli.
 
Mikilvægt er að fram fari frekari greining á fyrirliggjandi hugmyndum og þarfagreiningum og meta þarf nýjar hugmyndir. Niðurstaða fundarins var að Landspítali mun standa fyrir hugmyndavinnustofu í janúar þar sem þessar hugmyndir verða vegnar og metnar og mun HG taka virkan þátt í þeirri vinnu. Fulltrúi HG í vinnuhópnum verður Birgir Ingimarsson.
 
 
Á myndinni eru f.v.: Páll Matthíasson forstjóri LSH, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkv.stjóri flæðisviðs og Ingólfur Þórisson, framkv.stj. rekstrarsviðs Landspítala.