Febrúar 2016

Hugmyndastofa: Gerum góðan Grensás betri!

 

Merkum áfanga var náð í starfi Hollvina Grensásdeildar 18. og 19. febrúar 2016, þegar Landspítalinn bauð fjölbreyttum hópi til tveggja daga samráðsfundar um framtíð Grensásdeildar. Unnið var samkvæmt svokallaðri 3P aðferðafræði, sem mikið er beitt við úrlausn flókinna viðfangsefna. Gunnhildur Peiser hjúkrunarfræðingur leiddi vinnuna, en hún hefur sérhæft sig í stjórnun 3P vinnustofa. Í hópnum voru um 25 manns, núverandi og fyrrverandi skjólstæðingar Grensássdeildar, aðstandendur, fulltrúar flestra starfsstétta deildarinnar, ásamt fulltrúum fasteignasviðs Landsspítala og stjórn Hollvina Grensásdeildar,
Óhætt er að segja að vinnan var bæði frjó og skemmtileg og hópurinn mótaði snjallar tillögur um brýnar úrbætur. Þar bar hæst lausnir til að lengja "þjálfunartímann" þannig að þjálfun verði í boði síðdegis, um kvöld og helgar; brýnt er að allir skjólstæðingar fái einkaherbergi með baði; húsnæði fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun verði stórbætt, meðal annars með íþróttasal, æfingaeldhúsum (sem skjólstæðingar og gestir þeirra geti líka notað á kvöldin og um helgar) og fjölnotaherbergjum fyrir tómstundaiðju; öll nýting hússins þarf að stuðla að því að nýta sem best hið frábæra útsýni sem er á efri hæðum Grensásdeildar.
 
Allir voru sammála um nauðsyn þess að umbylta matarmálum Grensásdeildar. Langlegusjúklingar þurfa öðrum fremur að fá fjölbreyttan, lystugan og ferskan mat, sem matreiddur er á staðnum. Öll umgjörð máltíða þarf að vera falleg, frá borðbúnaði og framsetningu matarins til sjálfs borðsalarins. Lagt er til að megin matsalur deildarinnar verði á jarðhæð með glerskála og möguleika á að opna hann út í garð.
 
Frábærar hugmyndir komu fram um hvernig stórbæta má garðinn og gera hann aðgengilegan til æfinga og hvíldar árið um kring með góðri nýtingu á skjólsvæðum og fallegum garðskálum, sem skjólstæðingar og gestir geti notið.
 
Tillögur hópsins lúta allar að því að auka virðingu fyrir hverjum einstaklingi og óskum hans, bæta nýtingu á tíma og auka skilvirkni þjálfunar, gera umhverfið aðlaðandi og draga úr stofnanastemningu, og auka tengsl við aðstandendur og aðra gesti deildarinnar.
 
Hollvinir Grensásdeildar þakka stjórnendum LSH innilega fyrir þennan fund og hlakka til þess að fylgja tillögunum eftir.
 
 
Gunnhildur Peiser stjórnaði vinnustofunni. Unnið var að því að þróa hugmyndir að úrbótum á aðstöðu sjúklinga og aðstandenda.
 
 
Fulltrúar flestra starfsstétta á Grensásdeild tóku þátt í starfinu, sem og fulltrúar fasteignasviðs Landspítalans, stjórnarmenn Hollvina og fulltrúar skjólstæðinga deildarinnar.
 
 
 
Hér bera konur saman bækur sínar, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðisviðs Landspítalans, Guðrún Pétusdóttir varaformaður HG og Margrét Hallgrímsson hjúkrunarfræðingur á Grensásdeild.
 
 
 
 
Þátttakendur þróuðu hugmyndir bæði hver fyrir sig og í hópvinnu.
 
 
 
Legókubbar koma að góðum notum þegar skipuleggja þarf húsnæði og lóð.
 
 
 
Hér er einn hópanna að leggja lokahönd á tillögu sína að húsnæðisendurbótum. Frá vinstri: Dagbjört Matthíasdóttir, Margrét Hallgrímsson, Kolbrún Arnardóttir, Sigrún Garðarsdóttir, Arnar Már Ólafsson og Magnús Már Vilhjálmsson.
 
 
 
Stefán Yngvason, yfirlæknir Grensásdeildar, í þungum þönkum. Við hlið hans er Tinna Jóhönnudóttir, sálfræðingur.
 
 
 
Ótrúlega margt áorkaðist á tveim dögum. Hér er einn forsvarsmannanna að kynna þátttakendum tillögur síns hóps.