Október 2016

Edda Heiðrún Backman látin

 

Edda Heiðrún Backman, heiðursfélagi Hollvina Grensásdeildar og sérstakur ráðunautur samtakanna, lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. október 58 ára að aldri.
 
Hún lauk stúdentsprófi frá MS 1978 og leikaraprófi frá Leiklistarskóla Íslands 1983.
 
Edda Heiðrún átti farsælan feril sem leikari fram til ársins 2004 en þá greindist hún með MND-sjúkdóminn og varð að hætta að leika. Þá sneri hún sér að leikstjórn og leikstýrði nokkrum fjölda sýninga bæði í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Árið 2008 hóf Edda Heiðrún mála með munninum, bæði vatnslitamyndir og olíu, myndir af fuglum og fólki. Náði hún ótrúlegri leikni í þessari listgrein og haustið 2009 var henni boðin aðild að alþjóðlegum samtökum munn- og fótmálara, „The Association of Mouth and Foot Painters“. Á ferli sínum sem myndlistarmaður hélt hún fjölda sýninga, bæði í Reykjavík og út um land, auk þess sem hún átti myndir á sýningum erlendis.
 
Þrátt fyrir erfið veikindi vakti Edda Heiðrún stöðugt yfir velferð Grensásdeildar og lét ekkert tækifæri ónotað til að leggja starfsemi deildarinnar lið. Fyrir nokkrum árum stóð hún fyrir fyrir landssöfnun til uppbygg¬ing¬ar og endurbóta á Grensásdeild undir yfirskriftinni „Á rás fyrir Grensás“. Þar söfnuðust á annað hundrað milljónir króna.
 
Þá var Edda mikill talsmaður umhverfisverndar og íslenskrar náttúru. Hún stofnaði félagsskapinn Rödd náttúrunnar snemma á þessu ári, sem er ætlað það hlutverk að veita náttúrunni rödd og réttindi. Sérstaklega var henni hugleikin baráttan fyrir stofnun hálendisþjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
 
Edda Heiðrún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir list sína. Þrisvar sinnum hlotnuðust henni Íslensku sviðslistarverðlaunin, þ.á m. heiðursverðlaun Grímunnar 2015. 2003 hlaut hún Íslensku kvikmyndaverðlaunin, Edduna. 2006 var hún borgarlistamaður Reykjavíkur og 2008 heiðraði Alþingi hana með því að samþykkja hana í hóp heiðurslistamanna.
 
Stjórn Hollvina Grensásdeildar þakkar Eddu Heiðrúnu ómetanlegan stuðning hennar við starf samtakanna og vottar ástvinum hennar samúð.