Júlí 2017

Aðalfundur 2017: Guðrún tekur við af Ottó

 

Aðalfundur samtakanna Hollvinir Grensásdeildar (HG) var haldinn þriðjudaginn 6. júní 2017 á Grensásdeild.
Páll Svavarsson stýrði fundinum. Ottó Schopka formaður stjórnar flutti skýrslu stjórnar og Þórunn Þórhallsdóttir gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum félagsins.
 
Auk fjáröflunar og stuðnings við tækjakaup Grensásdeildar, var aðalverkefni félagsins á starfsárinu 2016 að undirbúa umbætur á húsnæði Grensásdeildar, stækkun þess og endurskipulagningu. Stjórnin hefur einnig hug á að lóð Grensásdeildar verði endurbætt, þannig að hún nýtist skjólstæðingum deildarinnar til útivistar og þjálfunar.
 
Í ársbyrjun 2016 urðu þáttaskil í baráttu Hollvina Grensásdeildar fyrir umbótum á deildinni, þegar yfirstjórn LSH lagðist á árarnar af miklum myndarskap. Páll Mathíasson forstjóri LSH hafði í desember 2015 boðað stjórn HG og stjórnendur deildarinnar á fund ásamt lykilfólki úr stjórnsýslu spítalans. Ræddar voru hugmyndir HG um umbætur sem gera þarf bæði innanhúss og utan á Grensásdeild. Hugmyndunum var vel tekið og ákveðið að láta ekki þar við sitja heldur stefna að framkvæmdum sem fyrst undir styrkri stjórn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra flæðisviðs LSH.
 
LSH bauð til samráðsfundar um framtíð Grensásdeildar í safnaðarheimili Neskirkju 18. og 19. febrúar 2016. Unnið var samkvæmt svokallaðri 3P aðferðafræði, sem mikið er beitt við úrlausn flókinna viðfangsefna. Gunnhildur Peiser hjúkrunarfræðingur leiddi vinnuna, en hún hefur sérhæft sig í stjórnun 3P vinnustofa. Í hópnum voru um 25 manns, núverandi og fyrrverandi skjólstæðingar Grensássdeildar, aðstandendur, fulltrúar flestra starfsstétta deildarinnar, ásamt fulltrúum fasteignasviðs LSH og stjórnar HG.
 
Óhætt er að segja að vinnan var bæði frjó og skemmtileg og hópurinn mótaði snjallar tillögur um brýnar úrbætur. Þar bar hæst lausnir til að lengja "þjálfunartímann" þannig að þjálfun verði í boði síðdegis, um kvöld og helgar; brýnt er að allir skjólstæðingar fái einkaherbergi með baði; húsnæði fyrir sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun og sálgæslu verði stórbætt, meðal annars með góðum íþróttasal, æfingaeldhúsum (sem skjólstæðingar og gestir þeirra geti líka notað á kvöldin og um helgar) og fjölnotaherbergjum fyrir tómstundaiðju. Við endurskipulagningu húsnæðisins þarf að gæta að því að nýta sem best hið frábæra útsýni sem er á Grensásdeild.
 
Allir voru sammála um nauðsyn þess að umbylta matarmálum Grensásdeildar. Langlegusjúklingar þurfa öðrum fremur að fá fjölbreyttan, lystugan og ferskan mat, sem matreiddur er á staðnum. Öll umgjörð máltíða þarf að vera falleg, frá borðbúnaði og framsetningu matarins til sjálfs borðsalarins. Lagt er til að megin matsalur deildarinnar verði á jarðhæð með glerskála og möguleika á að opna hann út í garð.
Frábærar hugmyndir komu fram um hvernig stórbæta má garðinn og gera hann aðgengilegan til æfinga og hvíldar árið um kring með góðri nýtingu á skjólsvæðum og fallegum garðskálum, sem skjólstæðingar og gestir geti notið.
 
Tillögur hópsins lutu allar að því að auka virðingu fyrir hverjum einstaklingi og óskum hans, bæta nýtingu á tíma og auka skilvirkni þjálfunar, gera umhverfið aðlaðandi og draga úr stofnanastemningu, og auka tengsl við aðstandendur og aðra gesti deildarinnar.
 
Eftir þennan vel heppnaða fund fór málið í frekari vinnslu hjá framkvæmdasviði LHS. Aðgerðaáætlun gerir ráð fyrir viðbyggingu sem bæði gefur viðbótarrými og möguleika á stórbættu skipulagi innanhúss, með bættri vinnuaðstöðu starfsfólks og skjólstæðinga, þ.m.t. fjölgun einbýla með baði, bættu aðgengi að dagdeild, fjölgun æfingaíbúða, o.fl. Með opnun viðbyggingarinnar út á lóðina verður hægt að nýta hana til útivistar og þjálfunar.
 
Áfram verður unnið að framgangi þessara úrbóta á næsta starfsári, auk þess sem Hollvinir munu styðja Grensásdeild til tækjakaupa og annarra nauðsynja.
 
Stjórnin þakkar af alhug öllum þeim, sem stutt hafa starf HG á árinu og vottar starfsfólki Grensásdeildar virðingu sína og aðdáun fyrir hið frábæra starf sem það vinnur, oft undir afar erfiðum kringstæðum.
 
Til vinstri: Ottó Schopka, fráfarandi formaður stjórnar HG, og Páll Svavarsson fundarstjóri aðalfundar.
Til hægri: Hluti nýkjörinnar stjórnar HG og fundarstjóri hlusta á erindi Stefáns Yngvasonar yfirlæknis: Guðrún Pétursdóttir, Dagbjört Oddný Matthíasdóttir, Birgir Ingimarsson, Þórunn Þórhallsdóttir, Ottó Schopka og Páll Svavarsson fundarstjóri.
 
Stjórn samtakanna var öll endurkosin á fundinum og hefur nú skipt með sér verkum: Birgir Ingimarsson varaformaður, Bryndís Björk Kristjánsdóttir meðstjórnandi, Dagbjört Oddný Matthíasdóttir ritari, Guðrún Pétursdóttir formaður og Þórunn Þórhallsdóttir gjaldkeri, en í varastjórn eru Baldvin Jónsson og Ottó Schopka.