Mars 2020

Nýja viðbyggingin verður að veruleika!

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur greint frá því að ný álma með 35 endurhæfingarrúmum verði fjármögnuð að fullu á næstu þremur árum. 

 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra færði stjórn Hollvina Grensásdeildar þær gleðifréttir að viðbygging Grensásdeildar verður að veruleika, sem hluti af fjárfestingaátaki ríkisstjórnarninnar.

 

Hafist verður handa strax á þessu ári með 200 milljón króna framlagi. Verkið verður fullfjármagnað á þremur árum. Hollvinir Grensásdeildar fagna þessum fréttum innilega, enda höfum við um árabil barist fyrir bættu húsnæði deildarinnar. Við þökkum Svandísi Svavarsdóttur fyrir þann skilning sem hún hefur sýnt þessu mikilvæga málefni, ekki aðeins í orði heldur á borði!

 

Í tilkynningu heilbrigðisráðherra segir:

 

Með fjárfestingarátakinu er gert ráð fyrir því að á þessu ári renni 200 milljónir króna framkvæmdir vegna stækkunar Grensásdeildar Landspítalans. Áætlaður heildarkostnaður vegna viðbyggingarinnar eru um 1,6 milljarðar króna sem áformað er að fjármagna að fullu á næstu þremur árum. Þörf fyrir endurhæfingarrými fer ört vaxandi samhliða miklum framförum í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Húsnæðið á Grensási er nær 50 ára gamalt og stenst ekki nútímakröfur varðandi sjúkrahúsþjónustu. Það birtist meðal annars í skorti á salernum, lyftum, takmarkaðri baðaðstöðu, skorti á einbýlum og ónógri aðstöðu fyrir aðstandendur sjúklinga. Mikill undirbúningur hefur þegar farið fram við frumhönnun viðbyggingar og hefur deiliskipulag verið samþykkt. Stærð viðbyggingar verður 3.100 fm2 og að lágmarki 35 endurhæfingarrúm á tveimur sólarhringsdeildum. Öll þjálfunaraðstaða og meðferðarrými verða til fyrirmyndar og mun uppbyggingin gjörbylta aðstöðu til endurhæfingar á Grensási og þar með til endurhæfingarþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi.

 

Stjórn Hollvina Grensásdeildar hlakkar til að vinna áfram með skjólstæðingum deildarinnar, frábæru starfsfólki hennar, stjórnendum LSH, og stjórnvöldum. Það er engu líkt að fá svona byr undir báða vængi og við munum ekki láta okkar eftir liggja!